Nemendur í 2. bekk Hvolsskóla heimsóttu sveitarstjórann
10.01.2018
Nemendur í 2. bekk í Hvolsskóla hafa undanfarið verið að læra um endurvinnslu, endurnýtni og fleira tengt umhverfisvernd og þá sérstaklega þegar kemur að nærumhverfinu. Í byrjun desember 2017 fóru nemendurnir meðal annars með fjölnotapoka gerða úr bolum í Kjarval og gáfu viðskiptavinum. Í gær, þriðjudaginn 9. janúar, hélt sveitarstjórinn smá móttöku fyrir nemendur bekkjarins sem komu ásamt kennara sínum, Erlu Berglindi Sigurðardóttur, og stuðningsfulltrúa, Guðrúnu Ingadóttur. Ísólfur Gylfi ræddi hin ýmsu málefni við börnin og þá sérstaklega mál er varða endurvinnslu og minnkun á notkun á plasti í sveitarfélaginu. Sveitarstjórinn lagði fyrir nemendurna hin ýmsu stærðfræðidæmi sem þau leystu af stakri prýði og svo sungu börnin 2 lög. Í lok móttökunnar færði Ísólfur bekknum borðfána með merki sveitarfélagsins þar sem þeim er þökkuð störf í þágu umhverfisvitundar í sveitarfélaginu.