- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Til upplýsinga, vegna frétta síðustu daga, þá má hér finna deiliskipulagstillögu og greinargerð fyrir Seljalandsfoss. Einnig er hér breyting á aðalskipulagi sem á við þetta svæði.
Hér má svo sjá þær athugasemdir er bárust þegar deiliskipulagstillagan var auglýst.
Hamragarðar / Seljalandsfoss – Deiliskipulag
Rangárþing eystra hefur verið að vinna að gerð deiliskipulags fyrir um 90 ha svæði úr landi Hamragarða og Seljalandsfoss frá því seinnihluta ársins 2013.
Þar sem að ljóst var í upphafi að verkefnið yrði ærið, var skipaður þverpólitískur starfshópur á vegum sveitarstjórnar sem skildi vinna málið í samráði við skipulagsfulltrúa og skipulagsráðgjafa.
Helstu markmið með gerð deiliskipulagsins voru eftirfarandi. Lögð verði áhersla á að þróa ferðamannastaðinn í sátt við umhverfi og samfélag. Meginmarkmið deiliskipulagsins tekur mið af því að styrkja heildarmynd staðarins samhliða því að anna þeim fjölda ferðamanna sem sækir staðinn heim.
• Bæta aðstöðu ferðamanna en um leið að draga úr álagi á viðkvæm svæði.
• Gera öruggari leið gegn um svæðið, m.a. bæta aðkomu íbúa sem búa við Þórsmerkurveg.
• Laga aðkomu og skilgreina bílastæði.
• Finna heppilegan stað fyrir upplýsinga- og þjónustumiðstöð.
• Byggja upp heildstætt stígakerfi sem dreifir umferð um svæðið.
• Bæta aðgengi fyrir alla á sem stærstum hluta svæðisins.
Lýsing deiliskipulagsins var kynnt fyrir almenningi og send til umsagnar fjölda umsagnaraðila í október 2013. Í kjölfarið hófst hin eiginlega vinna starfshópsins við gerð deiliskipulagsins. Fjöldi funda var haldinn á vegum hópsins og á flesta þeirra voru einnig boðaðir fulltrúar landeigenda, einnig var farið í nokkrar vettvangsferðir. Í upphafi voru tvær megin tillögur til skoðunar í hópnum. Báðar byggðust þær á miðlægri staðsetningu þjónustumiðstöðvar og bílastæðis. Önnur með uppbyggingu austan við núverandi Þórsmerkurveg og þá að vegurinn héldist óbreyttur (Tillaga B í deiliskipulagi) en hin gerði ráð fyrir því að núverandi Þórsmerkurvegur myndir færast vestur að varnargarði Markafljóts og uppbygging yrði fyrir austan hann (Tillaga A í deiliskipulagi). Eftir að landeigendur komu sínum tillögum á framfæri var bæt við þriðja kostinum sem felst í því að núverandi Þórsmerkurvegur yrði færður í átt að varnagarði og uppbygging yrði við svo kallað Brekkunef sunnarlega á skipulagssvæðinu (Tillaga C í deiliskipulagi).
Mikil og góð vinna fór í kjölfarið af stað við samanburð þessara þriggja kosta, ásamt samanburði við svo kallaðan 0 kost þ.e. óbreytt ástand. Fjöldi funda var haldinn ásamt því að tillögurnar voru kynntar fyrir almenningi með auglýsingum og opnun íbúafundi. Einnig voru tillögurnar kynntar og ræddar við helstu umsagnaraðila t.d. Umhverfisstofnun og Vegagerð. Í kafla 3.3 í greinargerð deiliskipulagsins má sjá helstu niðurstöður vegna samanburðarins og í kafla 3.4 kemur fram niðurstaða sveitarfélagsins.
Deiliskipulagstillaga ásamt umhverfisskýrslu var auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi frá 16. júní 2016, með athugasemdafresti til 28. júlí 2016. Þó nokkur fjöldi athugasemda og umsagna barst við tillögurnar á auglýsingartíma. Það sem eftir lifði árs 2016, var unnið úr athugasemdum og umsögnum. 9. febrúar 2017 samþykkti sveitarstjórn tillögurnar með óverulegum breytingum í kjölfar athugasemda og umsagna. Nú hafa tillögurnar verið sendar Skipulagsstofnun til yfirferðar og samþykktar. Vonast er eftir viðbrögðum frá stofnuninni fyrir lok maí.
Í kjölfar þeirra umræðna sem spunnist hafa í kringum fjölmiðlaumfjöllun síðustu vikna er rétt að benda á að engin drög hafa verið gerð um hönnun nýrrar þjónustumiðstöðvar. Þær myndir sem birtar hafa verið gefa því mjög svo ranga mynd af því hvernig mögulegri hönnun verður háttað. Vanda þarf vel til verka á þessum stað, sem og öðrum og mikilvægt að byggingar og aðrar framkvæmdir falli vel að landslagi og valdi sem minnstum spjöllum á náttúrulegu umhverfi. Í því deiliskipulagi sem nú hefur verið samþykk í sveitarstjórn eru mjög skýrir skilmálar varðandi þau umhverfisviðmið sem möguleg þjónustumiðstöð þarf að uppfylla. Einnig er ýtarlega fjallað um aðrar framkvæmdir innan svæðisins t.d. bílastæði og göngustíga og hvaða viðmið þau koma til með að þurfa að uppfylla.
Sú lóð sem gert er ráð fyrir í deiliskipulagi yrði sameiginleg lóð Rangárþings eystra og annarra landeigenda á svæðinu. Unnið er að stofnun landeigendafélags þessara aðila til þess að halda um rekstur svæðisins.
Að öðru leyti vill sveitarfélagið beina því til almennings og fjölmiðla að kynna sér vel þau gögn sem liggja fyrir vegna deiliskipulagsins.
F.h Rangárþings eystra
Anton Kári Halldórsson