- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Taktu þátt í að móta framtíðarstefnu fyrir skólana okkar
Ákveðið hefur verið að hefja vinnu við gerð skólastefnu fyrir sveitarfélagið. Stefna verður mótuð á sérstöku skólaþingi sem áformað er að halda 27. nóvember í Hvolsskóla klukkan 20:00. Í lögum um leikskóla nr. 90/2008 og grunnskóla nr. 91/2008 er sveitarfélögum nú lögð sú skylda á herðar að setja almenna stefnu um leik- og grunnskólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess.
Okkur er umhugað um að sem flestir komi að gerð stefnunnar. Til að ná fram skoðunum sem flestra þá er gert ráð fyrir tvískiptu skólaþingi þar sem nemendur leikskóla og grunnskóla koma saman fyrri hluta dags og ræða sínar hugmyndir og ábendingar til framtíðar. Á seinni hluta skólaþingsins verður kallað eftir hugmyndum og ábendingum starfsmanna, íbúa og annarra áhugasamra í sveitarfélaginu.
Núþegar hefur farið fram undirbúningsvinna þar sem þrír stuttir greiningarfundir voru haldnir með starfsfólki skóla, leikskóla og foreldrum. Við njótum stuðnings frá utanaðkomandi sérfræðingi við þessa vinnu og mun hann einnig koma að skólaþinginu þann 27. nóvember.
Tilgangur með að setja fram skýra stefnu og meta framgang hennar er að stuðla að umbótum í skólastarfi. Þannig er stefnumótun ekki verkefni sem á sér endapunkt heldur er hún síendurtekið ferli markmiðssetningar, mats og umbóta.
Ég hvet alla áhugasama að taka kvöldið 27. nóvember frá svo að skólaþingið okkar verði virkt og skili góðum hugmyndum og ábendingum inn í skólastefnuna okkar.
Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest þann 27. nóvember, heitt á könnunni og allir eru velkomnir.
Guðlaug Ósk Svansdóttir
Formaður fræðslunefndar