Gleði – virðing og vinátta eru einkunnarorð Hvolsskóla. Þetta eru falleg einkunnarorð. Það er ánægjulegt að fylgjast með metnaðarfullu og fjölbreyttu starfi skólanna okkar,  hvort heldur er Leikskólans Arkar eða Hvolsskóla. Samvinna skólanna og undirbúningur elstu barna leikskólans áður en þeir koma í Hvolsskóla er til mikillar fyrirmyndar og ánægjulegt að allir foreldrar elstu barnanna láta sig þetta varða. Því það er auðvitað mikið stökk að hitta fyrir í skólanum „stóru krakkana“  og allt í einu að vera ekki lengur elstur í leikskólanum heldur yngstur í skólanum. 

Eitt af aðalsmerkjum skólanna er fjölbreytni og styðja nemendur til þess að þeir verði sjálfstæðir og sterkir einstaklingar þegar námi lýkur. Mikilvægi góðra kennara og starfsmanna verður aldrei ofmetið. Góðir kennarar geta haft ómetanleg áhrif á nemendur og mótað bæði lífsviðhorf, þroska og framtíðaráform. Margir fá mikla og góða útrás í íþróttum og njóta alla æfi með áframhaldandi þjálfun, aðrir í söng og hljóðfæraleik sem á sama hátt nýtist alla  æfi. Leiklistarstarfið skilar sér einnig vel með öruggari og eðlilegri framkomu.  Þá er og afar merkilegt starf sem fram fer á umhverfissviðinu í skólanum.  Þar má nefna skemmtilega útikennslustofu sem gerð er m.a. úr trjáviði frá Tumastöðum en eitt verkefa nemenda fer einmitt fram í Tunguskógi og Tumastaðaskógi. Þá hafa jöklamælingar á Sólheimajökli vakið athygli á Íslandi og reyndar víðar. Þar er fylgst með hvernig jökullinn hopar vegna hlýnunar andrúmsloftsins. Fyrir vikið hafa nemendur fengið útnefninguna „Varðliðar umhverfisins"  - einnig hafa þeir verið styrkþegar Landsbankans vegna verkefnisins. 

Ljóst er að umhverfi og náttúra hafa mjög mótandi áhrif á líf mannsins. Kennsla barna og unglinga á þessum sviðum hefur mikil  áhrif. Umhverfisstefna Hvolsskóla er metnaðarfull – þar sem flokkun úrgangs er mikilvæg, endurvinnsla o.m.fl. mætti nefna. Í þessari stefnu felst m.a. sparnaður á raforku, vatni o.fl. en við Íslendingar erum ríkir af þessum auðlindum og förum oft illa með. Við sem eldri erum getum mjög margt af þessu lært og alveg ljóst að þegar þetta unga fólk tekur við stjórn og rekstri sveitarfélagsins, annarra stofnana eða fyrirtækja, þá verður þessi umhverfisstefna í hávegum höfð. Hefðbundna kennslan er auðvitað grunnurinn, lesa, skrifa, reikna og orðtakið „það er leikur að læra“ á alltaf við. 

Starfsemi Tónlistarskóla Rangæinga blómstrar og vex með fjölbreytni og leikgleði. Gleðin, virðingin og vináttan á svo sannarlega við þegar við þökkum skólastjórnendum, kennurum, starfsmönnum og nemendunum sjálfum fyrir þetta metnaðarfulla starf sem skilar sér svo sannarlega inn í framtíðina. Enda sagði Bismark forðum: „Framtíðin er þeirra þjóða sem eiga bestu skólana."

Ísólfur Gylfi Pálmason,
sveitarstjóri