- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Kjötsúpuhátíð er nú lokið enn eitt árið og tókst með eindæmum vel. Gestir létu ekki votviðri trufla sig á föstudagskvöldið og þrömmuðu um þorpið eða skelltu sér í Landeyjarnar og þáðu súpu af heimamönnum. Þökkum við öllum þeim fyrir sem lögðu á sig að elda og bjóða upp á súpu.
Kjötsúpuhátíðin í ár var með breyttu sniði frá fyrri árum en dagskráin var úti á miðbæjartúninu og tókst það mjög vel, sérstaklega þar sem veðrið lék við gesti. Dagskráin var ekki af verri endanum, söngur, leikur, glens og gleði. Rjómatertum var kastað og sprautað var vatni á fótboltakappa af miklum móð. Börn úr Hvolsskóla fóru afar fallega með ljóð og barnakór skólans söng nokkur vel valin lög. Mikil stemning myndaðist fyrir framan Sveitabúðina Unu þar sem markaðir spruttu upp og Útvarp Suðurland var með beina útsendingu frá sveitabúðinni. SS lét ekki sitt eftir liggja frekar en fyrri daginn og útdeildi um 900 skömmtum af súpu. Hátíðin væri varla söm án þess að fá smakk af kjötsúpunni þeirra.
Þegar kvölda tók var kveikt í brennu og þrjár kynslóðir tónlistarmanna úr sveitarfélaginu leiddi vallarsöng. Þetta voru þeir Helgi Hermannsson, Árni Þór Guðjónsson og Halldór Hrannar Hafsteinsson. Gríðarleg stemning myndaðist við brennuna og ekki var gleðin minni þegar Björgunarsveitin Dagrenning skaut flugeldum upp í kvöldhúmið.
Hljómsveitin Albatross hélt svo dúndur súpuball í Hvolnum.
Svona hátíð væri ekki hægt að halda nema með mikilli hjálp frá heimafólki og góðum styrktaraðilum. Starfsmenn áhaldahúsins á Hvolsvelli eiga kannski stærstu þakkirnar skilið enda óslítandi í undirbúningsvinnunni. Við þökkum Rafverkstæði Ragnars og Hótel Fljótshlíð fyrir vegleg verðlaun í skreytingakepnninni og öðrum styrktaraðilum fyrir þeirra aðkomu.