Vistheimt er tilraunaverkefni nemenda á Suðurlandi og eitt af grænfánaverkefnum Hvolsskóla. Í júní sl. kynntu nemendur úr Hvolsskóla og Helluskóla verkefnið í Norræna húsinu fyrir dr. Jane Goodall, eina þekktustu vísindakonu heims á sviði dýra- og náttúruverndar, og nemendum í Háskóla unga fólksins. Krakkarnir stóðu sig afar vel og eftir kynninguna spjallaði dr. Goodall við þau um umhverfismál og dýravernd.
Vistheimt er afar mikilvæg aðgerð til þess að endurheimta illa farin vistkerfi, t.d. þar sem landeyðing hefur átt sér stað. Landgræðsla hefur verið stunduð á Íslandi í yfir 100 ár, en hún getur leitt til vistheimtar ef upprunalegt vistkerfi er endurheimt. Vistheimt stuðlar að endurreisn landgæða, gróðurs og jarðvegs, líffræðilegrar fjölbreytni og margvíslegrar vistkerfaþjónustu. Hún er jafnframt mikilvægur þáttur í mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum því endurheimt gróðurs og jarðvegs felur í sér bindingu á kolefni, sem aftur dregur úr magni koltvísýrings í andrúmslofti. Vistheimt er þannig aðgerð sem er samnefnari yfir allar þrjár áskoranirnar sem nefndar eru hér að ofan: gróður- og jarðvegseyðingu, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsbreytingar.