Frá árinu 2020 hefur Rangárþing eystra unnið að verkefni um aðlögun erlendra íbúa í samstarfi við SASS, Mýrdalshrepp, Skaftárhrepp og Sveitafélagið Hornafjörð. Verkefnið felur í sér að greina þá þörf sem er í bættri þjónustu við íbúa af erlendum uppruna, hvaða þjónusta betur mætti fara og hvað þjónustu vantar.

Í byrjun árs 2023 var ráðinn verkefnastjóri yfir verkefnið með styrk frá Byggðastofnun. Verkefnisstjóranum er ætlað að þróa og leiða samstarfsvettvang tengdan verkefninu og styðja sveitarfélögin við gerð á móttökuáætlun og/ eða stefnu fyrir nýja íbúa á svæðinu.

Mikil vinna hefur átt sér stað síðustu mánuði í þessum málaflokki. Í Rangárþingi eystra er 30% íbúa af erlendu bergi brotnu og því ljóst að löngu er kominn tími á að bæta þjónustu við þennan hóp.

Í dag, 1. desember 2023, opnar enskur hluti heimasíðunnar hvolsvollur.is. Það er von sveitarfélagsins að þar með sé stigið eitt skref áfram í að fræða og ná til þeirra íbúa sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Heimasíðan mun í bland vera fræðsla og fréttir úr sveitarfélaginu. En einnig er margt annað í farvatninu og má þar nefna Fjölmenningarráð. Auglýst var eftir áhugasömum þátttakendum í það verkefni og fóru undirtektir fram úr björtustu vonum. Stefnt er á að nýtt ráð hefi göngu sína strax á nýju ári.