Endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna eldgossins í Eyjafjallajökli
01.06.2011
Er þar um að ræða húsaleigukostnað en íbúum á
öskusvæðum hefur gefist kostur á að búa tímabundið í leiguhúsnæði fjarri
heimili sínum. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra.
Einnig
segir í svarinu að húsaleigukostnaður vegna tímabundins flutnings
ábúenda sé styrktur, en frekari ákvarðanir um styrkveitingu eða
endurgreiðslu hafa ekki verið teknar af ríkisstjórninni. Þó kunni
sveitarfélög að eiga rétt til einhverra endurgreiðslna eða bóta á
grundvelli laga um Viðlagatryggingu Íslands og laga um Bjargráðasjóð.
Arndís
Soffía Sigurðardóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, spurði
forsætisráðherra út í endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna útgjalda af
völdum eldgossins í Eyjafjallajökli.
Í svari forsætisráðherra
segir meðal annars að engin ákvörðun hafi verið tekin um það af hálfu
ríkisstjórnarinnar að endurgreiða sveitarfélögunum útgjöld vegna
eldgossins sem ekki er hægt að sjá fyrir núna en kunna að koma til
síðar.
Hins vegar er tekið fram að ríkisstjórnin hafi fram til
þessa lagt til 800,7 milljónir króna til að mæta útgjöldum vegna
viðbragða í kjölfar eldgossins á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli. Þá
sé enn að störfum samráðshópur fimm ráðuneytisstjóra sem fjallar um
viðbrögð, neyðaraðgerðir og kostnað í kjölfar eldgossins í
Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Mun hann halda áfram að vinna að
verkefnum sínum í samvinnu við alla þá fjölmörgu aðila sem að málinu
hafa komið, svo sem ráðuneytin, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og
þjónustumiðstöðina á gossvæðinu, sveitarfélög, hagsmunaaðila og
stofnanir.