- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Það ríkir ávallt ákveðin eftirvænting hjá kjötmeisturum SS á Hvolsvelli þegar nýr árgangur af Tindfjallahangikjeti er fullverkaður og settur á markað. Framleiðsluferlið er flókið og tekur marga mánuðið þar sem fagmennirnir leggja metnað og þekkingu í verkefnið.
Í upphafi eru sérvalin lambalæri með ákveðinni holdfyllingu og réttu fituhlutfalli. Síðan eru lærin snyrt, söltuð með sérstakri saltuppskrift, þríreykt með íslensku birki og sauðataði, þurrkuð og látin hanga og moðna eftir kúnstarinnar reglum við kjöraðstæður. Utanaðkomandi þættir hafa áhrif á endanlegt bragð og það hvernig til tekst. Þannig hefur rigningasumar áhrif á kjötið sjálft og auk þess á sauðataðið og birkilurkana.
Meðfylgjandi mynd af kjötmeisturum SS er tekin þegar þeir gerðu lokapróf á 2013 árgerðinni. Að mörgu er að hyggja. Varan er snædd hrá og því þarf hún að vera mátulega sölt, mátulega þurr og rétta reykbragðið þarf að vera til staðar. Þetta árið höfðu kjötmeistararnir býsna ólíkar skoðanir. Sumir töldu óþurrkasumarið hafa haft áhrif til hins verra á meðan aðrir töldu að birkið hefði laufgast seint vegna vorkulda-, en síðan sprottið vel í vætutíðinni, sem skilaði sér í einstöku birkibragði þetta árið. Einn hafði það á orði að skítaveður Sunnanlands og hátt rakastig í lofti hefði haft góð áhrif á sauðataðið og gæfi þannig örlítinn keim af koníaki. Allir voru sammála um að 2013 árgangurinn væri ljúffengur og sæmdi sér vel á borðum landsmanna.
Tindfjallahangikjet er sælkeravara, framleidd í mjög takmörkuðu magni og fáanleg tímabundið í öllum betri matvöruverslunum. Sömu kjötiðnaðarmeistarar eiga heiðurinn af hinu þekkta Birkireykta hangikjöti frá SS.