Í sumar komu saman fyrstu nemendur Skógaskóla og settu niður stein sem þau gáfu til minningar um Jón Jósep Jóhannesson, kennara og skógræktarfrömuð.
Á myndunum má annars vegar sjá hópinn við steininn og hins vegar Jón Ásgeir Jónsson, skógfræðinema í Svíþjóð, við steininn.
Á vef Skógræktarfélags Íslands er þessi grein um tilurð Völvuskógar
Skógrækt á Skógum hófst vorið 1950 fyrir tilstuðlan Jóns Jóseps Jóhannessonar kennara, en hann var lengi ritari Skógræktarfélags Rangæinga og vann við skógrækt á Hallormsstað mörg sumur á árunum 1951 – 1979. Jón skrifaði árið 1955 grein í Ársrit Skógræktarfélags Íslands þar sem hann gerir grein fyrir aðstæðum og skógræktarstarfinu fyrstu fimm árin. Þar segir m.a.
„Hér á Skógaheiði hefur orðið mikil eyðing lands, graslendi minnkar stöðugt, og stór moldarrof teygja sig allt niður í brúnirnar fyrir ofan skólann. Úr þessum rofum fýkur mjög, er vindur leikur af norðri og gerir loft óhollt mönnum og málleysingjum.
Þetta var ein ástæða þess að skóggræðslutilraunir voru hafnar hér í Skógum og hafa nemendur unnið að þeim í einn eða tvo daga á vorin...“
Erfiðar aðstæður og tilraunir með tegundir gerðu það að verkum að talsverð afföll voru á sumum gróðursetningum. Þannig virðist skógarfuran, sem talsvert var gróðursett af á fyrstu árunum, öll hafa misfarist en finna má stöku rauðgreni í sæmilegum þrifum. Skógurinn ber þess enn merki hve veðurhart hefur verið í Skógum áður en skógurinn fór að skýla staðnum en nú tala menn um hversu gott skjól sé og vart gætir vinds þar sem skógurinn er vöxtulegastur nema hvað þýtur í krónuþakinu hátt fyrir ofan. Völvuskógur þekur nú um 10 ha. Skógurinn er fjölbreyttur og hefur að geyma glæsileg gömul tré, sum mjög fágæt hérlendis, til dæmis myndarlega dahúríulerkiblendinga (Larix x) sem og nokkur beinvaxin og glæsileg rússalerki. Sitkagreni og alaskaösp slaga víða í 20 metra hæð. Í brekkunni við rústir gripahúss vestan Réttargils er birkiskógurinn vaxinn myndarlegum trjám sem trúlega eru hluti af fyrstu gróðursetningunni frá árinu 1950 þótt heimildir þar um séu misvísandi.
Jón Jósep lét talsverð afföll á fyrstu gróðursetningum ekki slá sig út af laginu. Trú hans á að rækta mætti nytjavið er staðfest með nýtingu á efniviði úr skóginum til smíða á veglegum göngubrúm og tröppum. Timbrið er grisjunarviður af sitkagreni því sem Jón lét gróðursetja árið 1954. Yfir göngubrúnni í Kjallaragili slútir gullregn sem minnir á að þrátt fyrir mörg áföll héldu nemendur og kennarar ótrauð áfram með ræktunar- og tilraunastarfið enda var þess gætt að ábyrgðin gengi í arf við skólastjóraskipti. Enn hittast fyrrum nemendur í Skógum og gróðursetja tré fyrir framtíðina og til minningar um þroskandi dvöl við Skógaskóla.
Árið 1999 var gerður samningur við Skógræktarfélag Rangæinga um umsjón með skóginum í samráði við Skógasafn. Var hluti skógarins þá grisjaður og lagður svokallaður Þrasastígur sem liggur um Kinn neðan úr Kjallaragili upp í efri hluta Réttargils.
Fyrir tilstuðlan verkefnisins Opins skógar og styrktaraðila þess var ráðist í miklar endurbætur á stígakerfi og nýjar gönguleiðir opnaðar auk þess sem settar hafa verið upp trjámerkingar, áningarstaðir og skilti um merka staði.
Þrasastígur og Vargaslóð eru talsvert á fótinn sem og leggurinn áleiðis upp á Skógaheiði en aðrar leiðir ættu að vera greiðfærar flestum.