- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Á svæðinu eru margar vatnsveitur og m.a. var vatnsból einnar stærstu vatnsveitu á Suðurlandi, vatnsveita Vestmannaeyja, í hvað mestri nálægð við gosið sjálft.
AÐ VITA FJÖLDA VATNSBÓLA OG GÆÐI VATNSINS - FYRIRFRAM
Forsenda
þess að geta metið mögulegar breytingar var þó að vita hvernig vatnið
var fyrir gos. Það kom sér því mjög vel að unnið hafði verið gott starf
hjá sveitarfélögum og einstaklingum í samvinnu við
heilbrigðiseftirlitið, í að skrá eftirlitsskyld vatnsból og kanna gæði
þeirra. Í Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Rangárþingi eystra eru samtals
57 vatnsveitur (einka- eða samveitur) á skrá sem eftirlitsskyld
vatnsból. Vandinn var hins vegar sá að hvorki var vitað um fjölda
annarra vatnsbóla né gæði þess neysluvatns sem ekki var
starfsleyfisskylt skv. reglum þar um. Þetta átti m.a. við um
einkavatnsból þar sem hvorki var ferðaþjónusta eða mjólkurframleiðsla.
Með góðri samvinnu íbúa svæðisins og yfirvalda náðist þó að taka sýni af
öllu drykkjarvatni fólks. Þegar yfir lauk höfðu verið gerðar um það
bil 160 mælingar á leiðni og sýrustigi og 109 flúoríðmælingar.
GÓÐUR FRÁGANGUR – GOTT VATN
Vöktun á
neysluvatninu kenndi okkur margt um svæðin og mismunandi eiginleika
vatnsins. Til dæmis var líklegt að áhrif jarðhita hefðu alltaf haft
einhver áhrif á neysluvatn í einstaka vatnsbólum, heitt vatn ,,lak“ inn í
eina veituna og svo mætti lengi telja.
Ljósi punkturinn í öllu
þessu var að vatnið hélt gæðum sýnum. Því ber helst að þakka samveitum,
góðum frágangi vatnsbóla og samstilltu átaki í þessum málaflokki,
undanfarinna ára. Niðurstöður gerlamælinga á neysluvatni svæðisins voru
ennfremur góðar.
Eins og sjá má á meðfylgjandi kökuriti mældist
flúor í 17% sýnanna. Engin þeirra fór þó yfir viðmiðunarmörk samkvæmt
neysluvatnsreglugerð. Rétt er einnig að taka fram að fimm af þessum
sýnum voru af heitu vatni þar sem eðlilegt er að finna flúor og önnur
höfðu mælst með flúor fyrir gos.
Einfaldasta mælingin, og besta vísbendingin um breytingar á efnainnihaldi vatnsins, var leiðnimælingin. Góður frágangur og lokuð vatnsból hafði hér allt að segja um þær litlu breytingar sem neysluvatnið tók.
Eftir á að hyggja þá var það lán þessa svæðis að almennt var vel staðið að frágangi vatnsbóla. Þegar glímt er við náttúruöflin eru það ekki endilega sjálfsögð lífsgæði að búa við heilnæmt neysluvatn. Hreint vatn er hins vegar ætíð forsenda búsetu og góðra lífsskilyrða. Sú undirstaða er sem betur fer traust þrátt fyrir eldgosið og áhrif þess.
Elsa Ingjaldsdóttir,
framkvæmdastjóri
Heilbrigðiseftirlits Suðurlands