Góðir félagar í Félagi eldri borgara í Rangárvallasýslu (FEBRANG) og aðrir eldri borgarar! Því miður liggur allt félagsstarf niðri sem stendur vegna Corona19 veirunnar. Ekkert handverk, engin kór, engin spil og margir fara ekki meðal fólks af ótta við að smitast, enda erum við í áhættuhópi þó ekki sé nema vegna aldurs.

Þessar aðstæður eru mörgum erfiðar og hætta á að fólk einangrist til frambúðar. Það má ekki gerast, en hvað er til ráða?

Ýmislegt er hægt að gera. Útivera og hreyfing er gulls ígildi. Síminn er gott samskiptatæki. Er ekki tilvalið að slá á þráðinn til gamals kunningja og rifja upp gömul prakkarastrik og skemmtilegar samverustundir, eða tala einhvern sem þið getið átt von á að sé einmana?

Svo er tölvan magnað tæki til fjölbreyttra samskipta og fræðslu. Sumir eru kannski ekki bestu vinir tölvunnar en er þá ekki rakið tækifæri núna að æfa sig á tölvu? Við eldri eigum mörg hver börn eða barnabörn sem væru stolt af að leiðbeina. Landsamband eldri borgara (LEB) hefur látið gera góða bæklinga fyrir spjaldtölvur. Þú getur pantað þá á vefsíðunni okkar febrang.net eða hringt í Nonna formann, s. 6990055. Bæklingarnir kosta 800 kr.

Félögum í FEBRANG fer fjölgandi, eru þó ekki nema um 30% fólks yfir sextugt í sýslunni. Svo geta allir gengið í félagið án tillits til aldurs. Það er hægt að gera á vefsíðunni febrang.net eða hringja í Þórunni Ragnarsdóttur framkvæmdastjóra í síma 8925923. Þið sem eruð félagar nú þegar þekkið eflaust fólk sem ástæða væri til að hnippa í til að gerast félagar.

Það eru forréttindi að ná þeim aldri að teljast til eldri borgara. Lifa og njóta ætti að vera kjörorð okkar eldri.

Munum að þvo og spritta hendur, notum grímur og einnota hanska þegar við verslum.

Með baráttukveðjum

Stjórn FEBRANG