- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Ársritið Goðasteinn er nú farið í prentun, en ritstjórn þess var í höndum Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur frá Hólum, sem gegnir því starfi fyrst kvenna.
Efnistök blaðsins eru að venju fjölbreytt. Við birtum fróðleg erindi frá Oddastefnum auk tvískiptrar greinar um fótspor Sæmundar fróða, sem sannarlega eru mörg hér í sýslunni. Listamaður Goðasteins að þessu sinni er Glódís Margrét Guðmundsdóttir sem segir frá sambandi sínu við tónlistina, náttúruna og lífið.
Við ferðumst sigurreif með rangæskum knöpum á heimsmeistaramót, frumbirtum ljóð eftir skáldkonuna Ásdísi Ólafsdóttur við myndir Ástu á Grjótá og kynnumst nýjum rangæskum bókum og hljómplötum og auk nýstárlegra beitaraðferða í Ásahreppi.
Fastir liðir eins og minningarorð og annálar sveitarfélaganna eru á sínum stað og tveir nýir af sama toga kynntir til sögunnar: Munir í vörslu Skógasafns og Úr fórum Jóns R. Hjálmarssonar.
Þá birtum við myndir af Rangæingum af sýningunni Andlit haustsins auk afmælisgreina tveggja kvenfélaga, eins karlakórs, Seljavallalaugar og Djúpósstíflunnar.
Sem fyrr er blaðið myndríkt og fróðlegt og mikilvæg heimild um líf og starf í sýslunni á hverjum tíma. Hvetjum Rangæinga sem og aðra til að gerast áskrifendur og styðja þannig við útgáfu þessa merka rits, sem kemur nú út í 58. sinn.
Hægt er að skrá sig í áskrift að Goðasteini og eins kaupa stök eintök og eldri eintök hjá KPMG á Hellu. Hægt er að koma í KPMG að Þrúðvangi, senda tölvupóst á gtomasdottir@kpmg.is eða hringja í síma 545-6227.