- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Það er mikið um að vera í Rangárþingi eystra nú um helgina og fjörið byrjar strax í kvöld.
Klukkan 18 í dag, föstudagskvöldið 18. nóvember, er bingó á vegum Æskulýðsnefndar hestamannafélagsins Geysis, bingóið er haldið í anddyri Rangárhallarinnar á Hellu. Spilagleðin heldur áfram í kvöld þar sem að fyrsta spilakvöld kvenfélaganna í Landeyjum verður haldið í Njálsbúð og hefst það klukkan 20:30.
Á morgun, laugardaginn 19. nóvember, eru svo viðburðir fyrir íbúa á öllum aldri.
Klukkan 11 hefst Ungmennaþing í Hvolsskóla en þingið er haldið til að ljá börnum og ungmennum rödd í samfélaginu okkar. Börn í 1. - 6. bekk eru á þinginu milli kl. 11:00 - 13:00 og milli klukkan 14:00 - 16:00 er þing fyrir börn og ungmenni í 7. bekk og eldri.
Klukkan 13:30 hefst Málþing um Njálu sem Guðni Ágústsson stendur fyrir í Midgard. Rauði þráðurinn á málþinginu er að ræða gildi sögunnar og hún sett inn í samhengi nútímans. Stóru spurningunni um hvernig nota megi söguna til að styrkja ferðaþjónustuna í Rangárþingi verður velt upp. Ísólfur Gylfi Pálmason mun stjórna málþinginu. Guðni Ágústsson setur ráðstefnuna. Framsögur flytja Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra, Arthur Björgvin Bollason ræðir um Njálu á stafrænni öld, Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir segir frá Njálureflinum, Hermann Árnason ræðir ferð Flosa frá Svínafelli á Þríhyrningshálsa og Hjálmar Árnason mælir fyrir minni Jóns Böðvarssonar.
Á laugardagskvöldið er svo Hestamannafélagið Geysir með uppskeruhátíð í Hvolnum þar sem dagskráin hefst klukkan 20:00.
Sunnudaginn má svo nýta í íþróttahúsinu þar sem finna má krílafimi, fótboltaæfingar og opna tíma í badminton. Sundlaugin er opin milli 10:00 - 15:00 sem og líkamsræktin.