Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 11. apríl 2024.

Að venju stikla ég hér á stóru um nokkur af þeim helstu verkefnum sem við hjá Rangárþingi eystra erum að fást við þessa dagana. Það er vissulega styttra frá síðasta fundi sveitarstjórnar heldur en vanalega og einnig færri vinnudagar á milli funda, þar sem að páskarnir eru ný afstaðnir. Ég vona að sem flestir hafi notið páskanna, þó svo að ekki hafi nú kannski viðrað eins og best verður á kosið til útiveru, en gluggaveður var með eindæmum gott.

 

Sameiningarmál

Hreppsefnd Ásahrepps hefur óskað eftir óformlegum viðræðum við Rangárþing eystra og ytra um mögulega sameiningu sveitarfélaga í Rangárvallasýslu. Sveitarstjórnarfulltrúar þessara sveitarfélaga hafa hisst á einum fundi, þar sem ýmsar sviðsmyndir voru ræddar og fólki gefið tækifæri á því að tjá sínar skoðanir um hugsanlega sameiningu. Líflegar umræður sköpuðust á þessum fundi og eins og gefur að skilja voru skoðanir fólks mismunandi. Á heildina litið skilaði fundurinn því að ekkert var útilokað og sveitarstjórnir í Rangárvallasýslu tilbúnar til frekari viðræðna varðandi sameiningarmál. Árið 2021 var kosið síðast um sameiningu sveitarfélaga. Sú sameiningartillaga var umtalsvert stærri heldur en nú er til umræðu og innihélt einnig sveitarfélögin Mýrdals- og Skaftáhrepp. Sameiningin var samþykkt með naumum meirihluta í Rangárþingi eystra, en féll engu að síður þar sem að íbúar í Ásahreppi höfnuðu henni með yfirgnæfandi meirihluta. Eftir þessar sameiningarkosningar samþykkti sveitarstjórn Rangárþings eystra að gera könnun á meðal íbúa sinna varðandi viðhorf þeirra til frekari sameiningarviðræðna. Sú könnun leiddi í ljós að 64 prósent íbúa í Rangárþingi eystra voru fylgjandi því að sameina sveitarfélögin þrjú í Rangárvallasýslu. Það verður því spennandi að taka áfram þátt í þessari vinnu og að sjálfsögðu með hagsmuni okkar íbúa að leiðarljósi, því jú að lokum er þetta allt í höndum íbúanna okkar, það eru þeir sem taka ákvörðunina þegar og ef gengið verður til kosninga.

 

Bjarg – Nýjar íbúðir

Rétt fyrir páska bauð íbúðafélagið Bjarg, sveitarstjórnarfulltrúum að koma og skoða nýjar íbúðir sem reistar hafa verið í Hallgerðartúni 69-75. Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnarðarmarkmiða og er ætlað að tryggja fjölskyldum aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma. Sveitarstjórn samþykkti í byrjun árs 2022 aðkomu og þátttöku sína í verkefninu með stofnframlögum og úthlutun lóðar. Fyrsta skóflustungan var tekin þann 18. ágúst 2023 og Bjarg auglýsti íbúðirnar til leigu í september. Eftirspurn var talsvert umfram framboð og því fengu færri en vildu. Það væri því vel athugandi fyrir sveitarstjórn að kanna með áframhaldandi samstarf við Bjarg um byggingu fleiri íbúða. Íbúðirnar voru afhentar nýjum leigutökum þann 27. mars 2024, um mánuði á undan áætlun. Verkefnið vannst virkilega vel og eru íbúðirnar allar hinar glæsilegustu. Ég vil koma á framfæri kærum þökkum til Bjargs og þeirra verktaka sem komu að verkinu fyrir vel unnin störf og óska nýjum leigjendum innilega til hamingju með glæsilegar íbúðir.

 

Aðalfundir félaga – Byggðarsamlög

Nú á vordögum eru haldnir margir fundir í stjórnum félaga og byggðasamlaga sem sveitarfélagið hefur aðkomu að. Um er að ræða talsverðan fjölda funda og er megin ástæða þeirra að fara yfir og samþykkja ársreikninga fyrir árið 2023. Þessir reikningar rata svo inn í ársreikning sveitarfélagsins sem nú er í vinnslu og verður lagður fyrir sveitarstjórn fljótlega. Ánægjulegt er að segja frá því að flestir þessir reikningar líta vel út og bera skýr merki um góðan rekstur, sem vonandi eru góð fyrirheit fyrir ársreikning Rangárþings eystra fyrir árið 2023.

Uppbygging íþróttamannvirkja

Í vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 var samþykkt að útbúa nýjan körfuboltavöll utandyra og hefja vinnu við undirbúning gervigrasvallar. Undirbúningur beggja þessara framkvæmda miðar vel. Hönnun, val á staðsetningu og tilboð í efni, liggja að mestu fyrir varðandi körfuboltavöllinn. Gert er ráð fyrir að hann rísi á lóð Hvolsskóla nú í sumar. Varðandi gervigrasvöll, þá er verið að safna saman þeim gögnum og greinignum sem nú þegar hafa verið unnin. Út frá þeim þarf svo að taka ákvörðun um hvaða leið skuli fara. Þar hefur aðallega verið rætt hvort útbúa skuli nýjan völl eða þá að endurnýja SS völlinn og gera hann að upphituðum og upplýstum gervigrasvelli. Einnig hefur verið í umræðunni að koma upp strandblaksvelli á Gamla-Róló, en hann myndi sóma sér vel í logninu þar. Allt eru þetta mikilvæg verkefni fyrir innviði sveitarfélagsins og samfélagsins okkar hér í Rangárþingi eystra. Við viljum vanda til verka, vinna með íbúum og vera framúrskarandi þegar kemur að umgjörð sveitarfélagsin í heild.

 

Undirskrift samninga við íþróttafélög

Í vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 var samþykkt að auka fjármagn styrkja til íþróttafélaga í sveitarfélaginu til eflingar æskulýðsstarfs. Samningar við íþróttafélögin runnu flestir út um áramót og undanfarnar vikur hefur verið skrifað undir nýja samninga við félögin. Við erum virkilega stolt af íþróttafélögunum okkar og þeirra gríðarlega öfluga æskulýðsstarfi. Ég þori nánast að fullyrða að það eru fá sveitarfélög á landinu sem geta státað af eins fjölbreyttu og vönduðu æskulýðsstarfi þegar kemur að íþróttum og heilsueflingu. Fyrir það ber að þakka og þá sérstaklega þeim sem vinna fyrir íþróttafélögin gríðarlega mikilvægt sjálfboðastarf til að svo megi verða.

 

Kostnaðarmat – Úrgangsstjórnun sveitarfélaga

Eins og áður hefur komið fram í minnisblaði sveitarstjóra, þá tók Rangárþing eystra þátt í verkefni á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga ásamt 4 öðrum sveitarfélögum. Talsverð vinna hefur farið í fundahöld, gagnaöflun og greiningar. Í síðustu viku bárust fyrstu drög að niðurstöðuskýrslu verkefnisins. Óhætt er að segja að útkoman þar fyrir Rangárþing eystra og íbúa okkar sé góð er varðar kostnað sveitarfélagsins til sorpmála og eins kostnað á hvern íbúa sveitarfélagsins, en skv. fyrstu drögum er kostnaður lægstur fyrir hvern íbúa í Rangárþingi eystra. Það verður spennandi að sjá lokaafurðina og kynna hana fyrir íbúum sveitarfélagsins.

 

Að lokum

Vorið nálgast óðfluga, ef það er ekki nú þegar brostið á, farfuglarnir streyma til landsins og eitt og eitt grænt strá er farið að teygja sig upp úr jörðinni. Vorin eru yndislegur tími og vekja hjá manni von og bjartsýni um komandi tíma. Það er bjart framundan í Rangárþingi eystra.

 

 

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra