- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Að venju stikla ég hér á stóru um nokkur af þeim helstu verkefnum sem við hjá Rangárþingi eystra og aðrir í sveitarfélaginu okkar erum að fást við þessa dagana.
Fundir með FÍ og Útivist
Sveitarstjóri og skipulags- og byggingarfulltrúi áttu fundi með forsvarsmönnum Ferðafélags Íslands og Útivistar nú á dögunum. Tilgangur fundanna var að ræða málefni aðstöðu félaganna í Þórsmörk. Ferðafélagið á og rekur sína aðstöðu í Húsadal og Langadal og Útivist á og rekur sína aðstöðu í Básum. Umrædd svæði eru öll innan þjóðlendu og því gilda um þau sérstök lög og reglur. Sveitarfélagið hefur að undanförnu unnið að stofnun þjóðlendnanna í samráði við forsætisráðuneytið sem hefur forsjá yfir öllum þjóðlendum landsins f.h. ríkisins. Ein af þeim reglum sem um þjóðlendur gilda er að ef fyrirhuguð er nýting þeirra til lengri tíma en eins árs, beri að auglýsa þá nýtingu sem t.d. gætu verið lóðaréttindi líkt og á við á Þórsmerkursvæðinu. Fyrirhugað er að auglýsing um lausar lóðir á Þórsmerkursvæðinu verði birt næsta haust og í kjölfarið verði þeim réttindum úthlutað og gerðir samningar. Ferðafélagið og Útivist hafa lýst yfir vilja til þess að halda sínum rekstri áfram og byggja hann upp af myndarskap til framtíðar. Sveitarfélagið og umrædd félög hafa átt gott samstarf um hin ýmsu mál hingað til og vonir standa til þess að það komi til með að dafna vel til framtíðar.
Aukaaðalfundur SASS í Vestmannaeyjum
Aukaaðalfundur Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var haldinn í Vestmannaeyjum þann 7. júní. Fundurinn var vel sóttur af sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi og átti Rangárþing eystra þar fimm fulltrúa. SASS er mikilvægur samstarfsvettvangur fyrir sveitarfélögin á Suðurlandi þar sem mótuð er sameiginleg stefna og áherslur fyrir landshlutann. Eitt helsta verkefni fundarins var að hefja vinnu við stefnumörkun fyrir Sóknaráætlun Suðurlands fyrir árin 2025-2029, en gildandi sóknaráætlun rennur sitt skeið nú í lok árs. Það er mikilvægt að sveitarstjórnarmenn og íbúar allra sveitarfélaga á Suðurlandi leggi sitt lóð á vogaskálarnar til að móta áætlunina sem best og hún nýtist til uppbyggingar sveitarfélaga á Suðurlandi. Megináherslur gildandi áætlunar snúa að umhverfismálum, samfélagsmálum og atvinnu- og nýsköpunarmálum. Það verður spennandi að taka þátt í þeirri vinnu sem fram undan er við gerð nýrrar sóknaráætlunar fyrir landshlutann en út frá gildandi áætlun hefur talsvert fjármagn ratað til verkefna í Rangárþingi eystra, samfélaginu til mikilla hagsbóta.
Starfshópur um fýsileika jarðganga til Eyja
Innviðaráðherra skipaði starfshóp í september 2023 um fýsileika jarðganga milli lands og Vestmannaeyja. Hlutverk hópsins var að setja fram sviðsmyndir um mismunandi útfærslur jarðganga og meta arðsemi framkvæmdarinnar. Þá var starfshópnum falið að leggja fram og kostnaðarmeta áætlun um þær jarðfræðilegu rannsóknir, sem og aðrar rannsóknir sem framkvæma þarf, svo unnt verði að leggja endanlegt mat á fýsileika framkvæmdarinnar. Undirritaður hefur setið í umræddum hópi sem fulltrúi Rangárþings eystra. Það hefur verið einkar fróðlegt og ljóst að ef af vegtengingu við Vestmannaeyjar verður í framtíðinni mun það hafa veruleg áhrif á samfélagið í Rangárþingi eystra. Hópurinn hefur nú skilað skýrslu sinni til innviðaráðherra og eru helstu niðurstöður hennar að vinna þurfi þrepaskipta rannsókn á jarðlögum á hafsbotni á fyrirhugaðri gangnaleið áður en nýtt endurmat á stofnkostnaði og fýsileika er lagt fram. Sýnt þykir að ávinningur af framkvæmdinni er mikill, ekki síst vegna mikils tímasparnaðar vegfarenda og aukinnar umferðar ferðamanna. Jarðgöng munu tengja saman Suðurland og Vestmannaeyjar í eitt atvinnu- og þjónustusvæði og Rangæingar fengju aðgang að stórri útflutningshöfn. Hér er þó aðeins um fyrsta skref af mörgum að ræða og frekari rannsóknir munu leiða í ljós hvort um fýsilegan kost er að ræða. Í millitíðinni þurfum við í Rangárþingi eystra að halda áfram að gera okkur gildandi og hafa um málefni Landeyjahafnar að segja, þar er fjöldinn allur af ónýttum tækifærum.
Fundur í samráðsvettvangi sorpsamlaga Suður- og Vesturlandi
Reglulega eru haldnir fundir í samráðsvettvangi sorpsamlaga á Suður- og Vesturlandi. Þessi vettvangur er okkur dýrmætur þegar kemur að lausnum er varða móttöku og afsetningu sorps ásamt svæðisáætlunargerð fyrir svæðið til framtíðar. Á fundi hópsins nú í lok maí var haldin kynning á Sorpstöð Rangárvallasýslu og þeim fyrirmyndarárangri sem við Rangæingar höfum náð með því að taka að okkur sjálf söfnun og móttöku alls sorps í sýslunni. Það vekur eftirtekt margra hversu framarlega við stöndum í þessum málum og hversu lág gjöld við innheimtum af okkar íbúum fyrir þjónustuna. Það er okkur hvatning að heyra slík viðbrögð og hvetur okkur til að gera enn betur. Einn liður í því er að finna nýja og umhverfisvænni farvegi fyrir þann úrgang sem verður eftir þegar flokkun hefur átt sér stað. Í dag er þeim úrgangi skipað til Evrópu þar sem hann er brenndur til orkuvinnslu. Nú hefur Sorpstöð Rangárvallasýslu skrifað undir viljayfirlýsingu við Sorporku ehf. um uppsetningu á brennslustöð á Strönd. Gert er ráð fyrir að sú brennslustöð nái að brenna allt að 2500 tonnum af óendurvinnanlegu sorpi á ári og framleiði heitt vatn til húshitunar innan starfssvæðis Sorpstöðvar Rangárvallasýslu.
Kaupfélagssafnið / Njálusýning
Líkt og flestum íbúum er væntanlega kunnugt um, og hefur áður verið fjallað um í mínu minnisblaði, þá hefur sveitarfélagið selt eign sína að Hlíðarvegi 14, sem undanfarin ár hefur hýst m.a. Sögusetrið og Kaupfélagssafnið. Tímarnir hafa breyst og hefur verið tekin ákvörðun um að hætta sýningarhaldi í núverandi mynd. Sýningarhönnuður beggja sýninga hefur verið fenginn til að stýra því verki sem felst í því að leggja núverandi sýningar niður. Flestir af munum safnanna eru í einka- eða opinberri eigu annarra aðila en sveitarfélagsins og eru eigendur þegar byrjaðir að nálgast sína muni. Einnig hafa aðilar sýnt því áhuga að fá til sín hluta Kaupfélagssafnsins til uppsetningar á smærri sýningum. Skógasafn mun taka við hluta sýningarinnar og verða henni gerð skil á Skógasafni. Nýr eigandi að húsnæðinu hefur einnig óskað eftir því að hafa áfram uppi hluta af Njálusýningu. Unnið er að tæmingu húsnæðisins þessa dagana og er vandað til allra verka varðandi skráningu og utanumhald allra muna sýninganna.
Vinnuskólinn og leikjanámskeið
Það sjást þess glögglega merki í okkar samfélagi núna að vinnuskóli sveitarfélagsins hefur hafið störf. Um 30 ungmenni starfa við vinnuskólann í sumar við fjölbreytt verkefni undir dyggri stjórn verkstjóra vinnuskólans. Það er gríðarlega mikilvægt starf sem krakkarnir vinna fyrir sveitarfélagið okkar, þá einna helst við fegrun umhverfis víðs vegar í sveitarfélaginu ásamt fjöldanum öllum af tilfallandi verkefnum. Mig langar að koma á framfæri þakklæti til allra þeirra krakka og ungmenna sem vinna hjá okkur við þessi mikilvægu störf, því það er alls ekki sjálfgefið að slíkt gangi og hafa þó nokkur sveitarfélög þurft að fella niður sína vinnuskóla þar sem ekki hefur fengist starfsfólk til að sinna þeim störfum. Ég er ansi hræddur um að það myndi sjá verulega á umhverfi okkar sveitarfélags ef ekki væri fyrir öflugan vinnuskóla. Þá eru einnig komin á fullt hin ýmsu leikjanámskeið fyrir yngri hópinn okkar, þar er vel skipulögð og skemmtileg dagskrá og njóta þessi námskeið mikilla vinsælda og eru vel sótt. Ég hvet alla íbúa til að kynna sér vel dagskrá sumarsins sem er í boði hér hjá okkur í Rangárþingi eystra, þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Sumarframkvæmdir
Starfsmenn sveitarfélagsins í áhaldahúsi og verktakar í vinnu hjá sveitarfélaginu sitja heldur ekki auðum höndum þessa dagana. Unnið er að fjölbreyttum verkefnum vítt og breytt í sveitarfélaginu. Yfirborðsfrágangur á götum í Hallgerðartúni fer brátt að byrja, enda rís þar ný byggð með miklum hraða og hvert húsið á fætur öðru er að taka á sig mynd. Byggingarframkvæmdir eru hafnar á síðustu lóðum í Hvolstúni og verður það því fullbyggt innan tíðar. Framkvæmdir við endurbyggingu á gangstétt og bílastæði við ráðhúsið okkar hér á Austurvegi 4 eru í fullum gangi og verður aðgengi og ásýnd til fyrirmyndar. Málun merkinga á götum er talsvert verkefni í byrjun hvers sumars og er langt komin nú þegar. Slátturgengið okkar fer víða og hirðir gras af opnum svæðum víðs vegar í sveitarfélaginu og sumarstarfsmenn „garðyrkjudeildar“ fegra okkar umhverfi með fallegum sumarblómum í beðum og kerjum ásamt alls kyns viðhaldsframkvæmdum. Íbúar í Rangárþingi eystra eru ekki undaskyldir í þessum dugnaði og flestir taka virkan þátt með því að snurfusa í sínum görðum langt fram á bjartar sumarnætur. Vel gert allir.
Að lokum.
Nú má segja að sumarið sé brostið á eftir smá hikst, þó svo við Sunnlendingar getum kannski lítið kvartað miðað við tíðarfarið sem Norðlendingar hafa þurft að kljást við undanfarin misseri. Dagurinn fer að verða samfelldur allan sólarhringinn og oft og tíðum mikil áskorun að leggjast til hvílu, því hvað er dásamlegra en bjartar sumarnætur á Íslandi. 17. júní er nú á næsta leiti og fögnum við að þessu sinni einnig líka 80 ára afmælis lýðveldisins Íslands. Það eru mikil hátíðarhöld og gleði fram undan í sveitarfélaginu og hvet ég alla til að sækja sem flesta viðburði sem skipulagðir eru hér í okkar sveitarfélagi þann dag. Sumarið er stutt, njótum þess í botn, gleðjumst, ferðumst og verum glöð.
Anton Kári Halldórsson
Sveitarstjóri Rangárþings eystra