Myndlistarsýningin Þær í Sögusetrinu
Seinni myndlistarsýningin Þær var opnuð sunnudaginn 9. Á gúst í Gallerý Ormi, Sögusetrinu á Hvolsvelli. Sýningin Þær eru í tilefni af 100 ára kosningaafmælis kvenna.
Á bak við sýninguna Þær eru átta konur, bornar og barnfæddar í Rangárþingi eystra. Konurnar sýna verk sín á tveimur samsýningum í Gallerí Ormi í Sögusetrinu. Fyrri sýningin stóð frá 5. júlí til 7. ágúst en síðari sýningin frá 9. ágúst til 13. september. Konurnar eiga það sameiginlegt, fyrir utan uppruna sinn, að þær luku námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, sem grafískir hönnuðir, á 25 ára tímabili frá 1972 til 1997. Í verkum þeirra má glöggt sjá sterkar rætur til æskustöðvanna, þar má nefna að bernskuheimili kvennanna átta eru fimm bæir sem eru innan 12 km radíus, en sex þessara kvenna eru úr Fljótshlíð og tvær úr Hvolhreppi.
Listakonurnar sem frumsýndu verk sín 9. ágúst eru, Katrín Jónsdóttir, Guðrún le Sage de Fontenay, Katrín Óskarsdóttir og Álfheiður Ólafsdóttir. Ísólfur G. Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra færði þeim blóm fyrir hönd sveitarfélagsins á opnuninni.