NÁLA margmiðlunarsýning opnaði í Sögusetrinu á Hvolsvelli í dag.
NÁLA er margmiðlunarsýning fyrir börn (á öllum aldri) og opnunarboðsgestir voru börn af yngsta stigi Hvolsskóla og elstu árgangar í leikskólanum Örk á Hvolsvelli. Sýningin kemur beint í Sögusetrið frá Þjóðminjasafninu þar sem hún vakti mikla lukku meðal sýningargesta á öllum aldri.
Sýningin NÁLA er byggð á samnefndri barnabók eftir Evu Þengilsdóttur. Bókin, sem kom út hjá Sölku í október 2014, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sagan er óður til íslensks menningararfs og um leið ævintýri um valið milli góðs og ills, stríðs og friðar. Innblástur sækir höfundur í hið 300 ára gamla Riddarateppi sem varðveitt er á Þjóðminjasafninu. Sýningin er í Sögusetrinu þar sem hún á vel heima innan um Njálu og Njálurefilinn en gestir geta tekið þátt í að teikna 90 metra listaverk í anda NÁLU.