Katla jarðvangur stendur fyrir námskeiði ætlað öllu áhugafólki um fugla og fuglaskoðun. Markmið námskeiðsins er að kynna íslenskt fuglalíf, stöðu fugla í náttúru landsins, undirstöðuatriði fuglaskoðunar og fuglavernd á Íslandi. Farið verður yfir íslensku fuglafánuna, hvað einkennir hana og hvaða fugla helst sé að finna hér og hvernig best sé að greina þá. Farið verður yfir helstu fuglastaði á landinu, með sérstaka áherslu á jarðvanginn.
Kynntir verða sjónaukar, fuglabækur (greiningarhandbækur), fuglatímarit, kvikmyndir, vefsíður og önnur hjálpartæki. Lítillega verður tæpt á fuglaljósmyndun, en slíkt er efni í heilt námskeið. Sagt verður frá Fuglavernd og öðrum félögum og stofnunum sem hafa fuglarannsóknir og fuglavernd á sinni könnu.
Námskeiðinu lýkur með vettvangsferð um Suðurlandið. Lagt af stað frá Selfossi kl. 10:00 og ekið sem leið liggur austur í Mýrdal, með stuttum stoppum á völdum fuglastöðum við þjóðveginn. Þegar í Mýrdalinn er komið verða skoðaðir fuglar kringum Vík og síðan verður haldið í Dyrhólaey og um Dyrhólaósinn. Fartíminn stendur sem hæst og farfuglar að streyma til landsins. Við getum átt von á gæsa- og álftahópum á túnum, vaðfuglum í fjörum og öndum og vaðfuglum við tjarnir og vötn. Lundi, fýll og rita eru sest upp í Dyrhólaey og fyrstu kríurnar ættu að vera komnar til landsins. Snemmbúnir varpfuglar eru þegar orpnir.
Hafið með ykkur sjónauka, fuglabók, föt við hæfi og nesti.
• Tími: Fyrirlestrar þriðjudaginn 29. apríl og miðvikudaginn 30. apríl kl. 20.00-22.30 og vettvangsferð laugardaginn 3. maí kl. 10.00 -18.00
• Verð: 6.000 krónur
• Staður: Selfoss, Hvolsvöllur, Vík og Kirkjubæjarklaustur (fyrirlestrar í fjarfundarbúnaði)
• Leiðbeinandi: Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur og ljósmyndari
Skráning fer fram hjá Steinunni hjá Fræðslunetinu í síma 560-2038, steinunnosk@fraedslunet.is eða á heimasíðu Fræðslunetsins www.fraedslunet.is. Nánari upplýsingar í síma 8570634 (Rannveig) eða á netföngin rannveig@katlageopark.is og jonabjork@katlageopark.is