- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Þann 21. nóvember var ný safngeymsla Skógasafns tekin formlega í notkun. Húsið er 1380 m2 stálgrindarhús með 380 m2 millilofti. Bygging þess hófst haustið 2009 og hefur staðið yfir með hléum í tæp 4 ár. Það er nú fullbúið og er byggingarkostnaður um 100 milljónir sem er talsvert undir upphaflegri kostnaðaráætlun. Verkið var ekki boðið út, heldur sá safnið sjálft um framkvæmdina sem var að mestu unnin af heimamönnum. Viðar Bjarnason frá Ásólfsskála var byggingarstjóri og Verkfræðistofa Hauks Ásgeirssonar hannaði húsið. Engin lán voru tekin vegna þessara framkvæmda, en húsið var byggt fyrir hagnað af rekstri safnsins.
Nýja skemman bætir úr brýnni þörf fyrir gott geymsluhús á safnlóðinni og mun gegna mikilvægu hlutverki í rekstri safnsins. Safnkosturinn er mikill og fer stöðugt vaxandi en gripir í eigu Skógasafns skipta orðið þúsundum. Þarna verður einnig verkstæði og aðstaða til forvörslu og viðgerða. Örugg og vönduð geymsla er hverju safni nauðsynleg svo tryggja megi varðveislu safngripanna við bestu skilyrði um ókomin ár.