- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Kæru sveitungar.
Það er gaman að vera íbúi í Rangárþingi eystra þessi misserin. Uppbyggingin og krafturinn alls ráðandi hvert sem litið er. Sumarið var gott, þó vissulega sé alltaf hægt að óska sér betra veðurs. Gestir sem sóttu okkur heim hafa sjaldan verið fleiri og virðist ekki vera lát á. Haustið hefur einnig farið mjúkum höndum um okkur sem vonandi gefur góð fyrirheit fyrir komandi vetur.
Íbúar í Rangárþingi eystra hafa aldrei verið fleiri. Þann 1. janúar 2022 voru íbúar sveitarfélagsins 1.971, en eru í dag, þegar þessar línur eru settar á blað 2.037. Á síðustu 10 mánuðum hefur okkur því fjölgað um 66 íbúa. Þetta er ánægjuleg þróun og undirstrikar það sem við vitum, að hér er gott að búa. Þó að fjölgun íbúa sé af hinu góða, þá megum við samt sem áður ekki sofa á verðinum. Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið að vera í stakk búið í uppbyggingu sinna innviða til að geta tekið við fjölguninni. Við þurfum að hugsa langt fram í tímann m.t.t. skipulags íbúða- og atvinnusvæða, við þurfum að huga að uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja og svo lengi mætti telja.
Það er einnig mikilvægt að við horfum til atvinnuuppbyggingar í öllu sveitarfélaginu. Við þurfum að leggja áherslu á fjölbreytt atvinnulíf og fjölgun eftirsóknarverðra starfa í sem flestum geirum atvinnulífsins. Skv. vef Byggðarstofnunar eru opinber störf í Rangárþingi eystra 55 og hefur fjölgað um 13 á síðustu 4 árum. Þarna getum við gert mun betur í að gera okkur gildandi til að taka á móti t.d. störfum án staðsetningar frá hinu opinbera. Í samanburði við nágrannasveitarfélögin okkar er um augljóst tækifæri til fjölgunar starfa að ræða.
Framkvæmdir við nýjan leikskóla ganga vel og eru á áætlun. Áætluð verklok eru í júlí 2023. Það verður því virkilega skemmtilegt að taka í notkun nýjan glæsilegan leikskóla næsta haust. Í millitíðinni erum við auðvitað að fást við óvenjulegar aðstæður þ.e. leikskólinn er rekin í nokkrum sjálfstæðum einingum við húsakost og aðstöðu sem ekki var gerð fyrir starfsemi leikskóla. Því vil ég koma á framfæri miklu þakklæti til allra starfsmanna leikskólans, foreldra og ekki hvað síst barnanna sjálfra fyrir að láta þetta ganga.
Haustin eru annasamur tími fyrir sveitarstjórnarmenn. Mikið er um fundarhöld og ráðstefnur þar sem línurnar eru lagðar fyrir komandi ár. Samstarf sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa almennt er af hinu góða. Við erum öll að fást við sömu verkefni og áskoranir sem snúa flestar að því að veita íbúum okkar eins góða og öfluga þjónustu og kostur er á. Nú stendur yfir vinna við undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023. Vinnan gengur vel og eru margir sem koma þar að máli, starfsmenn sveitarfélagsins og kjörnir fulltrúar. Mikilvægt er að vanda vel til verka, vera skynsamur og raunsær en samt sem áður áræðin og framsýnn. Við horfum björtum augum til framtíðar og leggjum okkur fram við að vinna í sátt og samlyndi, sveitarfélaginu okkar og íbúum þess til heilla.
Virðingarfyllst
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri