G.Helga Ingadóttir söngkona og Birgir Jóhann Birgisson tónlistarmaður flytja nokkur lög saman við opnun sýningarinnar, sem verður kl. 15 og má jafnvel eiga von á óvættum og skemmtilegum uppákomum að auki.
 
Sýningin í Eldstó Café er sama ljósmyndasýning og fer upp hjá Rolls Royce í London á næstunni.

Ragnar TH er þekktur fyrir að taka einstæðar myndir af Eldgosum og hefur haldið námskeið fyrir ljósmyndara víðsvegar að úr heiminum í að mynda eldgos. Hann rekur sitt eigið fyrirtæki, Arctic Images  = www.arctic-images.com 
Ragnar TH hóf feril sinn sem blaðaljósmyndari, en fór fljótlega að starfa sjálfstætt. Hann hefur hlotið þrenn CLIO verðlaun og tekið þátt í fjölda sýninga á myndum sínum.

Bókin Eyjafjallajökull eftir Ara Trausta Guðmundsson jarðfræðing og Ragnar TH sem kom út á þessu ári fékk mikla athygli bæði hérlendis og erlendis, seldist strax upp og nú er komin út haust útgáfa sem verður til sölu ma. í Eldstó. Margar af myndunum í bókinni verða á sýningunni og eru til sölu. Myndirnar sem verða settar upp á sýningunni, fengu umfjöllun bæði í New York Times og tímaritinu National Geographic í vor og prýddu forsíður beggja blaðanna.

Má einnig geta þess að leirmunirnir sem að eru eftir hjónin í Eldstó, Þór  og Helgu, eru glerjaðir með al-íslenskum Eldfjallaglerungum og því hæfir það einkar vel að hafa slíka sýningu í Eldstó.

Ragnar TH Sigurðsson er stórt nafn í íslenskri ljósmyndun og enginn ætti að láta þessa sýningu fram hjá sér fara.