Alls munu um 1900 íbúar á Suðurlandi fá send kynningarbréf sem send verða út á næstu dögum og vikum.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna heilsufarsleg og sálræn áhrif eldgossins á íbúa þeirra svæða á Suðurlandi sem urðu fyrir mestu áreiti vegna eldgossins. Rannsóknir á fólki sem reynt hefur áfall sýna að þátttakendur upplifa slíkar rannsóknir jákvætt. Ef fólk upplifir aftur á móti erfiðar tilfinningar í tengslum við rannsóknina þá getur það leitað til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands / Heilsugæslu Rangárþings sér að kostanaðarlausu. Mikilvægt er fyrir rannsóknina að sem flestir taki þátt í henni, þrátt fyrir að sumir hafi orðið lítið sem ekkert varir við gosið. Það gefur ákveðnar vísbendingar.

Íbúar Skagafjarðar í samanburðarhópi
Rannsóknin getur skilað mikilvægum upplýsingum um áhrif eldgosa á heilsu manna meðal annars um andlega líðan þess að upplifa eldgos í návígi við heimili sitt og að vera útsettur fyrir ösku af því tagi sem Eyjafjallajökull sendi frá sér. Til samanburðar verður hluti íbúa í Skagafirði fenginn til að svara spurningalista, en Skagafjörður er landbúnaðarhérað þar sem beinna áhrifa eldgossins gætti ekki. Sömuleiðis er aukin áhætta náttúruhamfara á því svæði óþekkt.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr. Guðrún Pétursdóttir framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og verkefnastjóri gagnaöflunar er Hildur Friðriksdóttir. Fjölmargir vísindamenn standa að rannsókninni. Þeir eru Unnur Valdimarsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, Arna Hauksdóttir og Hanne Krage Carlsen frá Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Þórir Björn Kolbeinsson yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Þórarinn Gíslason lungnalæknir við Landspítala, Sigurður Guðmundsson forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, Berglind Runólfsdóttir sálfræðingur við Landspítala, Þröstur Þorseinsson sérfræðingur við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, Gunnlaug Einarsdóttir sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun og Halldór Runólfsson yfirdýralæknir.

Ef einhverjar spurningar vakna er velkomið að hafa samband:

Hildur Friðriksdóttir verkefnastjóri gagnasöfnunar
s. 8200 651
hildurfr@hi.is/hildurfr@simnet.is