- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Í vor samþykkti Alþingi fjárveitingu upp á 150 milljónir til sex sveitarfélaga vegna hruns í ferðaþjónustu á Covid-19 tímum. Samráðsteymi greindi stöðu og áskoranir sveitarfélaganna og nú í haust skiluðu sveitarfélögin inn fullbúnum tillögum, til teymisins, um aðgerðir til að skapa betri grundvöll fyrir fjölbreyttara atvinnulíf til lengri tíma og styrkja stoðir þeirra og stuðla að nýsköpun. Á grunni þessara tillagna hafa samningar verið undirritaðir við sveitarfélögin.
Rangárþing eystra fær 18 milljónir úr þessari fjárveitingu og var samningur undirritaður nú í október. Verkefnin sem sveitarfélagið lagði til eru eftirfarandi:
Heilsueflandi samfélag: Markmiðið er að bæta lýðheilsu og stuðla að heilsueflandi samfélagi.
Verkefnið snýst um að ráðast í greiningarvinnu og átak til að innleiða heilsueflandi aðgerðir. Rangárþing eystra hefur á undanförnum árum unnið ötullega að bættiri aðstöðu til heilsueflingar, svo sem með líkamsrætarsal, heilsustíg utan dyra, frisbígolfvelli og ýmsu fleiru. Mikilvægt er að þessu verði komið betur á framfæri til að auka notkun. Hugmyndavinna er nú í gangi hjá stýrihóp heilsueflandi samfélags um hugmyndir að fleiri aðgerðum, og má nefna stækkun frisbígolfvallar svo um löglegan keppnisvöll verði að ræða, bætt aðstaða í sundlaug, bættar merkingar af gönguleiðum og bætt aðstaða víðs vegar við stofnanir til að hvetja til virks ferðamáta. Vinna er þegar hafin við að bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í sveitarfélaginu í samvinnu við lögreglu. Einnig er fyrirhugað að halda fyrirlestraröð fyrir alla íbúa um ýmsar heilsueflandi aðgerðir.
Hönnun hjólreiðastíga í tengslum við heilsueflandi samfélag: Markmiðið er að stuðla að heilsueflingu og virkum ferðamáta.
Verkefnið snýst um hönnun á hjólreiðastígum samhliða heildarendurskoðun aðalskipulags. Nauðsynlegt að ráðast í hönnun hjólreiðaleiða til að skapa tækifæri fyrir þá sem búa í dreifbýli næst þéttbýlinu til að nýta virkan feðramáta til vinnu. Að sama skapi myndu slíkir hjólreiðastígar skapa tækifæri annarra íbúa til aukinnar útivistar og hreyfingar með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á lýðheilsu. Eykur einnig öryggi hjólandi fólks.
Eitt samfélag: Markmiðið er að bæta aðlögun nýrra íbúa með áherslu á erlenda ríkisborgara.
Verkefnið snýst um endurskoðun og innleiðingu móttökuáætlunar fyrir nýja og erlenda íbúa. Stöðugildi starfsmanns sem fer með þjónustu við erlenda íbúa Rangárþings eystra verður endurskoðað með tilliti til þessa. Unnið verður að rafrænum leiðarvísi með það að markmiði að aðgengi að þjónustu verði sem allra best og undir einum hatti.
Njálurefillinn: Markmiðið er að ljúka frumhönnun og undirbúningi að uppsetningu Njálurefils.
Verkefnið snýst um þarfagreiningu og frumhönnun á sýningu Njálurefils og þar með verður stuðlað að sögutengdri ferðaþjónustu á svæðinu. Nauðsynlegt er að ráðast í hönnun og uppsetningu á sýningarrými fyrir 90 m löngum refli um Njálssögu sem er glæsileg vinna sem farið hefur fram í Rangárþingi eystra sl. 7 ár. Afar brýnt er að undurbúa hönnun og uppsetningu á þessu sögutengda listaverki.