Nú þegar hafa nokkur fyrirtæki í Rangárþingi eystra skráð sig til þátttöku. Vertu með! Taktu þátt!


Lífshlaupið verður ræst í fimmta sinn miðvikudaginn 1. febrúar 
n.k. Um 16.400 manns tóku þátt í Lífshlaupinu á síðasta ári og fjölgaði þátttakendum um rúmlega 3000 á milli ára. Lífshlaupið höfðar til allra landsmanna og er hægt að skrá þátttöku á vefsíðu Lífshlaupsins www.lifshlaupid.is en þar gefst þátttakendum kostur á að taka þátt í:

  • vinnustaðakeppni frá 1. – 21. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
  • hvatningarleik fyrir grunnskóla frá 1. – 14. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
  • einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið 


Markmið Lífshlaupsins er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig og huga að sinni hreyfingu í frítíma, heimilisstöfum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn svo framarlega sem hún nær ráðleggingum embætti landlæknis um hreyfingu. Einnig er hægt að fylgjast með stöðunni í hverju sveitarfélagi fyrir sig þar sem kemur fram fjöldi liða, þátttakenda, daga og mínútna.

Vinnustaðir/skólar er sá vettvangur þar sem hagsmunir þessara aðila og íþróttahreyfingarinnar liggja saman við uppbyggingu almennings- og fyrirtækjaíþrótta, forvörnum og velferð samfélagsins til framtíðar. Við óskum eftir liðsinni ykkar við að hvetja vinnustaði, grunnskóla og einstaklinga í ykkar sveitarfélagi til þátttöku og nota þannig tækifærið til að skapa létta stemningu og efla í leið líkama, sál og félagsandann með því að hreyfa sig daglega. Meðfylgjandi er merki verkefnisins sem má nota með frétt t.d. á heimasíðu.

Samstarfsaðilar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands vegna Lífshlaupsins eru: velferðarráðuneytið, mennta-og menningarmálaráðuneytið, embætti landlæknis, Advania, Rás 2 og Ávaxtabíllinn.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið og skráningu gefur Jóna Hildur Bjarnadóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ , jona@isi.is í síma: 514-4000.

Bestu kveðjur
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands
Jóna Hildur Bjarnadóttir
sviðsstjóri almenningsíþróttasviðs ÍSÍ
jona@isi.is
514-4000