- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Öskufok og afleiðingar þess
Eftir
að gróður sölnaði er meira öskufok umhverfis Eyjafjallajökul og andleg
líðan sveiflast með öskufokinu, mikill munur er að ræða við íbúa þegar
logn er og bjart eða í öskufoki þegar loftgæði eru takmörkuð og íbúar
tala um að þeir bryðji ösku. Öskufok birgir oft sýn og fólk hefur
áhyggjur af framtíðaráhrifum þess. Búið er að birta ítarlegar
rannsóknir á ösku frá Eyjafjallajökli sem gerðar voru á 12
rannsóknarstofum í Englandi. Niðurstöður hafa sýnt að varla er mælanlegt
magn af brennisteinsefnum í öskunni en þau geta stuðlað að astma og
ekki heldur kísilkristöllum (crystalline silica), efni sem talið er
hættulegt fyrir lungu manna og getur valdið svokölluðum steinlungum hjá
námaverkamönnum sem vinna við ýmsan námagröft og eru í stöðugri
snertingu við ryk sem inniheldur þetta efni.
Ryk og svifryksmælingar
Mikil
umræða hefur verið um svifryk og svifryksmælingar. Vert er að geta þess
að vanalega þegar rætt er um svifryk er átt við borgarryk sem hefur
allt aðra samsetningu en venjulegt ryk eða öskuryk. Stór hluti þess er
sót og tjöruagnir úr niðurbrotsefnum olíuafurða en slíkt finnst ekki í
ösku. Hættumörk og ráðleggingar eru miðuð við þessa samsetningu. Ætíð
er skynsamlegt að forða sér undan þéttu ryki sem ertir, halda sig
innanhúss, verja vit og þess háttar en viðmiðunarmörk varðandi ösku eru
því miður ekki eins skýr og varðandi svifrykið. Vert er að leggja
áherslu á að það er stöðug viðvera í langan tíma í þéttu ryki sem veldur
heilsutjóni en ekki það að vera tímabundið í miklu rykkófi. Fylgst
hefur verið með eldfjallinu Montserrat í Vestur-Indíum í meir en 15 ár
en þar gýs að staðaldri og þar er mikið magn, 10-30%, af
kísilkristöllum í öskunni. Fólk kringum eldstöðina hefur ekki sýnt
skaðleg áhrif eftir 15 ár og sértaklega virðast börn ekki sýna aukinn
einkenni vegna astma.
Rannsókn á langtímaáhrifum eldgossins á lýðheilsu
Heilbrigðisráðherra
hefur skipað sérstakan stýrihóp til að undirbúa vísindarannsókn á
langtímaáhrifum eldgossins á lýðheilsu. Sú rannsókn mun ná til íbúa á
svæðinu allt frá Hvolsvelli til Kirkjubæjarklausturs og einnig
samanburðarhóps. Gert er ráð fyrir að þessi rannsókn muni standa í mörg
ár og fólki verði fylgt eftir svipað og í rannsóknum Hjartaverndar.
Rannsóknin er mikilvæg í ljósi þess að lítið er vitað um langtímaáhrif
gosösku á heilsu manna. Spurningalistar vegna rannsóknarinnar eru
farnir að berast þátttakendum. 2000 manna úrtak er nú að fá
spurningarlista. Rannsóknin er unnin í samvinnu við dýralækna,
Umhverfisstofnun, jarðvísindamenn og fleiri til að kanna áhrif margra
þátta.
Samkennd íbúa og samvera fjölskyldna
Á svæðinu
undir Eyjafjöllum hafa sumir foreldrar sagt frá sektarkennd yfir því að
hafa ekki sent börnin sín til ættingja á meðan öskufallið var hvað
mest. Reynsla af gosinu í Vestmannaeyjum bendir til að ávallt sé rétt
að mæla með að fjölskyldur haldi saman og að foreldrar sendi ekki börn
frá sér jafnvel þó til ættingja sé. Félagsstarf í sveitunum er að
komast í fullan gang og er það af hinu góða. Reiði og önugleiki er
bráðsmitandi og hjálpar ekki að burðast með slíkar tilfinningar.
Samfélagið er að rétta sig við eftir miklar hamfarir og það að vera
jákvæður og sýna samkennd flýtir því að samfélagið nái fyrri styrk.
Þórir Kolbeinsson, yfirlæknir á Hellu.