Á annan í hvítasunnu, mánudaginn 28. maí 2012, munu þau Selma Guðmundsdóttir píanóleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari halda tónleika í Selinu á Stokkalæk. Eru þeir og tónleikar í Reykholtskirkju í Borgarfirði þremur dögum síðar undanfari tveggja vikna tónleikaferðar þessara frábæru listamanna til Kína í júnímánuði. Tónleikarnir á Stokkalæk hefjast kl. 16 og eru miðapantanir í síma 4875512 og 8645870.
Á efnisskrá tónleikanna eru bæði verk eftir íslensk tónskáld, svo sem Árna Thorsteinsson og Hafliða Hallgrímsson, kínverk tónskáld á borð við Zhu Heng-quian og Sha-Han-kun, og klassísk verk eftir eftir ýmsa afburðamenn tónsögunnar, svo sem Vivaldi, Mendelssohn, Boccherini, Saint-Saens, Schumann, Rachmaninoff, Pablo Casals, Gabriel Fauré o. fl.
Selma Guðmundsdóttir píanóleikari hefur haldið fjölda einleikstónleika, bæði hér heima og erlendis, leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Þrándheimi og margsinnis komið fram í útvarpi og sjónvarpi. Hún hefur starfað mikið með öðrum hljóðfæraleikurum og söngvurum og oft leikið með Kammersveit Reykjavíkur, m.a. á Listahátíð í Bergen og á tónleikaferð um Bretland. Hún hefur leikið reglulega með Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleikara frá 1968, m.a. á tónlistarhátíð ungra einleikara í Helsinki auk tónleika í Þýskalandi, Litháen, Skotlandi og í Carnegie Hall í New York. Selma starfar sem píanókennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og meðleikari við Listaháskóla Íslands. Hún var einn af stofnendum Richard Wagner Félagsins á Íslandi 1995 og hefur verið formaður þess frá upphafi.
Gunnar Kvaran sellóleikari kennir við tónlistardeild Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík. Auk fastra starfa stundar Gunnar umfangsmikið tónleikahald bæði hér landi og erlendis. Hann hefur haldið einleiks- og kammertónleika í mörgum Evrópulöndum auk Bandaríkjanna og Kanada og m.a. komið fram í Wigmore Hall í London, Carnegie Hall í New York og í Beethoven House í Bonn. Gunnar hefur margoft leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og komið fram í útvarpi og sjónvarpi. Hann var bæjarlistamaður Seltjarnarness 1996. Mörg undanfarin sumur hefur hann ásamt konu sinni, Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara, verið gestur á hinum ýmsu tónlistarhátíðum í Bandaríkjunum. Þau Gunnar, Guðný og Peter Máté píanóleikari mynda Tríó Reykjavíkur sem gert hefur garðinn frægan um árabil.
Bæði hafa þau Selma Guðmundsdóttir og Gunnar Kvaran gefið út hljómplötur og geisladiska, ein sér eða með öðrum. Saman hafa þau gefið út tvo geisladiska, Elegíu 1996 og Gunnar og Selma 2004. Þau hafa haft með sér samstarf frá árinu 1995 og haldið tónleika víða, þar á meðal um 200 tónleika fyrir skólabörn.