Uppáhaldslög Öðlinga að Kvoslæk 6. október

Laugardaginn 6. október klukkan 15.00 syngur karlakórinn Öðlingar uppáhaldslög sín í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð. Guðjón Halldór Óskarsson stjórnar kórnum eins og hann hefur gert frá upphafi. Þetta er síðasti menningarviðburður af átta á Kvoslæk á þessu sumri, að venju er boðið kaffi í hlénu. Aðgangseyrir 2000 kr.
*
Öðlingarnir voru stofnaðir 1997 þar sem karlakór vantaði í Rangárvallasýslu til að syngja við útfarir. Til að verða við óskum um að heimamenn kveddu Rangæinga með söng tóku nokkrir félagar úr Karlakór Rangæinga sig saman og stofnuðu lítinn sönghóp til að sinna þessu mikilvæga hlutverki.
Á 21 ári hafa Öðlingar sungið við nærri hálft þúsund útfarir og auk þess við fjölda annarra tilefna. Öðlingar syngja til dæmis oft í Sögusetrinu á Hvolsvelli fyrir erlenda hópa frá Hótel Rangá að ósk hótelsins.
Árið 2006 fóru Öðlingar í stóra söngferð til Vesturheims og sungu við hátíðarhöld á Íslendingadeginum í Gimli og héldu tónleika í Gimli og Árborg í Manitoba í Kanada og einnig í Mountain í Norður-Dakota í Bandaríkjunum. 
Guðjón Halldór Óskarsson hefur stjórnað Öðlingum frá upphafi.
Á efnisskránni laugardaginn 6. október eru uppáhaldslög Öðlinga, lög sem hafa fylgt hópnum frá upphafi, sum hafa heyrst við útfarir en flest við önnur tilefni.



Stuðningsaðilar tónleikanna eru:
SASS
Tónlistarsjóður
FÍH